Stuð og meira stuð og bara ekkert tuð..

Úfff.. það sem ég gerði ekki um helgina.. þetta var alveg rosalegt. Byrjuðum föstudagskvöldið á því að hitta krakkana mína af NACA og horfa á þau dansa á næturmarkaðnum. Þau vöktu mikla lukku og margir að horfa á. Litlar stelpur sem vildu vera eins og Srey Meas og Lyny.
Eftir að hafa kvatt krakkana héldum við Justin og Steinunn á indverskan stað sem var fullur af indverjum og borðuðum á okkur gat og holu og komum út lyktandi eins og indverji. Alveg dæmalaust góður matur. Komum svo við í ísbúðinni og gripum nokkra pinna til að fara heim í vídjókvöld. Justin sá um myndavalið, við erum með smá Patrick Swaysathon í gangi, vorum búin með Point Break og að sjálfsögðu skildi maðurinn hneturnar eftir frammi á stiga pallinum og valdi Dirty Dancing. Sem vakti mikla lukku hjá okkur Steinunni. Reyndum svo að horfa á Fast and Furious 4, svo að Justin gæti gert heiðarlega tilraun við að endurheimta karlmennsku sína, en án árángurs svo við skelltum bara American Graffiti í í staðinn. Á laugardaginn var vaknað tiltölulega snemma og framreyddur dýrindismorgunverður af hreinni jógúrt, ferskum ávextum og múslí. Fórum svo í gallabuxur og alvöru lokaða skó (mjög skrítið að fara í sokka...það eru alveg 6 mánuðir síðan ég var seinast í sokkum) og örkuðum í nokkrar hjólabúðir að skoða dörtbæk. Fundum svo loksins hjálmabúð. Ég ætlaði sko að fjárfesta í hjálm... en engin svoleiðis lukka... Justin fann fínann hjálm eftir að hafa mátað aðeins 4. Ég fann engann hjálm eftir að hafa mátað alla í búðinni! í tveim búðum! Ég vil nefninlega almennilegann hjálm ekki bara einhverja bleika skel eins og flestir vildu selja mér.
Jæja... við fórum svo að leigja mótórhjól. Ákváðum að punga út 5 dollurum fyrir nýja druslu í staðinn fyrir 3 dollara fyrir eldri druslu.. Meira ruslið. Eftir að hafa verið á hjólinu í minna en 10 mínótur vorum við stoppuð af lögreglunni. Justin ekki með ökuskýrtenið sitt og afþví að hjólið var drasl héldu þeir að hann væri fullur. Löggimann bað um 5 dollara mútur, ég þverneitaði og Justin sagðist vera lögga í Ástralíu svo við komumst upp með að borga minna en það sem lókallinn borgar, hressandi. Jæja, við héldum af stað og fundum sófabúð, skoðuðum og sátum í öllum sófunum og fengum "matseðill" ef við viljum fá sérhannaðann sófa. Svo var ferðinni haldið áfram og Justin var bitinn af hundi. Sem betur fer var hann í gallabuxum og var góður strákum með sokkana upp á kálfa svo að hundurinn særði hann ekki, annars hefði það verið hundaæðissprauta beint í bumbuna. Svo brunuðum við aðeins meira um þar til að við heyrðum skothvell.. Fundum svo rólega götu fyrir mig að prófa hjólið. Ég hef aldrei keyrt í SA-Asíu, né keyrt mótórhjól, en þetta var súper gaman. 6 mótodop kallar komu að horfa á mig og kenna mér á hjólið, því Justin var klárlega ekki nógu góður til að gera það. Svo af stað brunaði ég. Náði að skipta um gýr og allar græjur. Öryggisvörður á hinum enda götunnar kom líka út að kenna mér þegar ég klessti næstum hjólið þegar ég var að beygja. Mér tókst líka að tæma byggingarsvæði því ég þótti augljóslega meira spennandi en að moka steypu. Ekki á hverjum degi sem fólk sé hvíta stelpu skelli hlæjandi á 10 km hraða. Mér tókst líka að klessa næstum því á kyrrstæðann tuktuk. Stuð!! Það er samt alveg ár og dagur þar til ég treysti mér í umferðina hérna, ég meina ég er hálf hrædd við að keyra á Íslandi í bíl, hvað þá hér á mótórhjóli og að þurfa að horfa í allar áttir í einu þar sem það er bara ein regla "það eru engar reglur".
Skiluðum svo ruslhjólinu í sjoppuna og fórum á markaðina að kaupa í matinn. Einn drullu krabbi (mud crab) 6 risa rækjur (sem eru samt bara litlar hérna) slatti af grænmeti, krydd og súkkulaði. Justin eldaði veislumat og ég sá um að brytja niður súkkulaðið í eftirrétt. Fórum svo á Touk að hitta vinina og hafa stuð. Það var sungið og trallað, urðum vitni af árekstri og slagsmálum þar sem 2 byssur voru dregnar upp en engin mega læti samt, gestir af barnum hinum megin við götuna lokkaðir inn því við spiluðum mun betri tónlist, spilað pool, og dansað við vændiskonur. Bara venjulegt laugardagskvöld í Kingdom of Wonder.
Á sunnudaginn vorum við bara róleg fram eftir degi. Ég eldaði chili con carne og kartöflur og fórum svo í verslunnar leiðangur sem endaði með 5 bókum og 12 DVD myndum og sunnudagsteik á veitingastað sem ætti að reka þjónustufólkið sitt og ráða annað og matreiða japanskann mat, nafnið gefur japanskt til kynna en svo er þetta bara breskur pub. Ég fékk líka gleði fréttir. Núna kenni ég sund 5 tíma á viku... hugsanlega meira þegar skólinn byrjar fyrir alvöru sem þýðir að ég fer að moka inn seðlunum, eða svoleiðis, allavega miðað við hve lítið ég vinn.
Já helgin var góð.
Í dag og í gær er bara vinna eins og venjulega. Annars erum við byrjuð í nýju sjálfboða prógrammi. Að tala við hermenn sem eru í ensku námi til að efla orðaforðann þeirra. Ansi skemmtilegt, frír matur og ölið flæðandi. Hins vegar var ekki gaman þegar ég var spurð hversu langt ég væri gengin, já þeir héldu að ég væri ófrísk... Sem ég er ekki.
Á morgun höldum við svo upp á árs afmælið okkar. Það var samt eiginlega í maí, en við ákváðum að fresta því um 6 vikur, ein vika fyrir hvern mánuð sem við vorum í burtu. Eina sem ég veit að það verður eitthvað franskt og eitthvað rómantískt. Justin laug að mér að hann vissi um alveg ágætann khmer grill stað þar sem maturinn kostar minna en 50 cent. Hann er svo mikill grallari. Ég á samt ekkert að vita þetta.. ég heyrði hann bara vera að tala við einhvern í símann í gær þar sem hann var að spurja um franskt og rómantískt.

Augnsýkingin er að verða búin vona ég. Ferlega pirrandi og óþægilegt. Það er eins og húð sem á að vera bakvið augað sé að þröngva sér framm.

Oh jæja, er þetta ekki komið nóg? Ég ætla að fara í seinni parts vinnuna mína og hlaða svo upp eins og einni eða fimm greinum á dohop.com og elda sítrónu kjúkkling með jarðeplastöppu og strengbaunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ansi góð frétt, rosa eðlilegt að það séu dregnar upp tvær byssur á laugardagskveldi.

kkv, Grimsby Gulli!

Gunnlaugur Arnar Elíasson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 09:52

2 identicon

Þetta var alveg ofsalega skemmtilegt blogg :D

Inga! (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 16:52

3 identicon

díssuss ég fæ bara vatn í munninn yfir þessu öllu sem þið eruð að elda *sleeef*

og af hverju voruði í sokkum??

hlakka annars til að lesa greinar eftir þig :D

spíra (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 20:18

4 Smámynd: Erna Eiríksdóttir

Í Kingdome of Wonder vaeri skritid ad sja ekki eins og eina byssu a laugardagskvoldi, einu sinni sa eg mann hlaupa, og annan a eftir honum med byssu og thann thridja med sverd og thann fjórda med prik. Ég faldi mig bara bakvid tuktuk.

Takk Inga mín :)

Vid vorum i sokkum thvi vid vorum i alvoru skom med reimum til ad getad keyrt moto, eg er ekki nogu god a motoinu til ad getad gert thad i thongum. Jah, thad er sko munur ad hafa eldhus en ekki bara hellu ut a svolum!

Erna Eiríksdóttir, 25.6.2009 kl. 05:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband