Færsluflokkur: Spaugilegt

Gleði gleði, Erna Sendiherra

Halló halló,

Ég sá annan furðulegan bíl.  Klukkan var 1 um morgun og ég var á leiðinni heim frá Ásdísi og Benjamin.  Bíllinn keyrði fyrir framan okkur.  Tvö stór pálmatré komu út um afturgluggana! Já það er búið að vera mikið stuð í Kambódíu.  Fullt af Íslendingum, svo mikið að Justin kallar íbúðina okkar Sendiráð Íslands í Kambódíu.  Fyrst komu Bylgja sem býr í Malasíu og Sæunn vinkona hennar sem er að fara að vinna á Expo-inu í Shanghai.  Fyrstu helgina í febrúar komu Helga, Þorgerður Anna og Davíð ásamt kólumbískum vini sínum, Felipe.  Helga og Anna voru með mér í kínverskunni þarna um árið og þær komu núna í heimsókn.  Það var mikil gleði að sjá þær aftur.  Tjúttuðum smá á föstudagskvöldinu og spiluðum Jenga. 

Á laugardeginum var Manday með öllu tilheyrandi.  Íslendingum og kólumba til mikillar gleði.  Grillið okkar var loksins komið til Phnom Penh þannig að við fórum að sækja það og settum það saman og grilluðum!  Svín, rækjur og kartöflur og salat (það fór samt ekki á grillið).  Ásdís, Benjamín, Freyja og Gaia komu í veisluna og það var Íslendingaparti með Helgu, Önnu, Davíð, Felipe og Mike á svölunum okkar, sem ég var nýbúin að grisja og gera aðgengilegar, það er ég fjarlægði stóran part af frumskóginum sem var þar.  Alveg hreint æðislegt kvöld.  Fórum svo út að dansa og skemmtum okkur konunglega.

Í gær var bolludagur, ég vissi það af því að Krónan lágvöruverslun sendi mér tölvupóst í síðustu viku.  Þannig að ég bakaði þessar líka fínu vatnsdeigsbollur.  Theary, hreingerningarkonan mín, var alveg himinlifandi yfir þessu öllu saman og fannst þær alveg rosalega góðar!  Svo þar sem ég var hvort eð er með heitan ofn skellti ég í ostasnúða líka, var að hugsa um að gera möffins líka, en ákvað að geyma það þar til á konudaginn, en þá ætlum við að halda bóndadaginn því ég steingleymdi hvenær hann er.  Justin finnst þessar íslensku hefðir miklu skemmtilegri en valentínusardagurinn, sem er haldinn í Ástralíu og tekur glaður þátt í þessu með mér.  Held að við getum þó ekki gert neitt á öskudaginn, verðum að vinna, eða sumardaginn fyrsta... því það er alltaf sumar hérna.

Já og svo komu tveir ljósmyndarar, þeir eru að vinna að bók.  Ég veit ekkert hvað ég má segja, nema það var gaman að hitta þá og hjálpa þeim aðeins.

Núna er kínverska nýja árið gengið í garð, ár tígursins, drekadansarar eru út um allt og trumbusláttur, einstaka kínverji sprengdur og nokkrir flugeldar.  Annars er ég ekki viss, gæti náttúrulega verið byssuskot.  Ekki skemmdi fyrir hjá Khmer-um að það væri líka valentínus á fyrsta degi tígursins.  Því valentínusardagurinn er stærsti dagur ársins hérna!  Margra klukkutíma biðröð á Kentucky Fried Chicken!! NGO-in þræða göturnar og gefa ástföngnum unglingum smokka því margir krakkar hér misskilja valentínusardaginn og sofa hvort hjá öðru í fyrsta skipti, ja.. öryggið á oddinn allavega!

Það er annars allt gott að frétta.  Nýja íbúðin er góð, nema þegar padda eða eðla fara yfir skynjara niðri í bankanum, þá þurfum við að fara út og bíða eftir að einhver komi og slökkvi á viðvörunar kerfinu.  NACA krakkarnir eru sáttir. Vinnnan er góð, Giving Tree og ELT og Oriental.  Allt gott.  Bara miiiiiikið að gera!!

Lifið heil, ekki borða of mikið af saltkjöti og fáið fullt af namminamm.  mmmmmmmm namminamm mig langar í kúlusúkk, bananabombur, freyju bombur og hlaup.  Síðar á þessu ári?

P.S. Ég er úin að fá nokkrar kvartanir vegna bloggleysis, samt er ég alveg viss um að enginn les þetta því þegar ég fer inn á síðuna og skoða hvað ég fæ margar heimsóknir eru það 20-50 þegar ég blogga og set það á smettið en annars er það 1-5.. Hmm.

 

 


Undralandið Kambódía


Mig langar að deila með ykkur einu sem ég sá í vikunni...

Á laugardaginn, um miðnætti á leiðinni heim frá vinum okkur sáum við Justin gamlan Toyota Camry. Ekkert óvenjulegt svo sem. Nema að það kom froða út úr baksætisgluggunum. Mikil forða sem bullað út úr bílnum. Þegar við kíktum betur á þetta sáum við að það var eins og stórt tjald fullt af einhverju í aftursætinu. Bílstjórinn og farþeginn voru strákur og stelpa um tvítugt, mjög alvarleg á svip og andlitin eiginlega klesst í framrúðunna vegna þess að tjaldið í aftursætinu var svo stórt. Utan um skottið var búið a binda varadekkið og stórann poka af steypudufti eða hrísgrjónum.

Kambódía er kölluð Kingdom of Wonder... Á hverjum degi íhuga ég hvað er í
gangi hérna.

MANDAY á Dohop

Meira nýtt! eftir MIG!

Þið þekkið þetta. coppí-peist á linkinn:

http://blog.dohop.com/index.php/2009/09/11/man-day/

Skellið ykkur á laxerandi, fjárfestið í spandex galla og komið í heimsókn fyrir MANDAY!

njótið


Bananar talandi Khmer með heimþrá í sundlauginni hjá pósthúsinu sem flaug til og frá.

Á þriðjudaginn kom leigusalakonan mín og dinglaði bjöllunni rétt áður en ég varð að fara í ELT. Hún hafði miklar áhyggjur af mér.
Hún hafði séð Justin fara með Inu, með töskur og alskonar, eldsnemma morguninn áður. Hún hélt að hann hefði farið frá mér fyrir aðra konu....
Kim spurði mig "eiginmaður þinn, hvar er hann? Er hann farinn frá þér fyrir þessa ljósku". Hún var svo einlæg og áhyggjufull yfir þessu öllu saman að ég átti erfitt með að hrynja niður í gólfið og hlæja eins og vitlaus kona. Kannski hafði hún bara svona miklar áhyggjur af þessu öllu því það er hann sem kemur alltaf með peningana fyrir leigunni okkar.
Jæja, hún gaf mér banana til að hugga mig og til að biðjast afsökunnar á látunum í framkvæmdunum sem áttu að vera búnar fyrir 2 vikum. Mér finnst nú að hún hefði getað skipt um ljósaperur áður en við fluttum inn... eða jafnvel sett nýjan hurðarhún svo ég hætti að læsa mig inni.

Ég og Sokuntea (aðstoðarmanneskjan mín) létum öllum illum látum í gær í sundi. Við urðum að bíða í 15 mín eftir fyrsta hópnum okkar svo við stukkum bara útí, gerðum bombur og dýfðum okkur og stóðum á höndum og fórum heljarstökk og syntum eins og höfrungar. Öðrum kennurum og börnunum til mikillar lukku, ég er líka viss um að það hafi verið einhver öfund í loftinu, því það var heitt heitt.. nú er ég ekki manneskja sem kvarta mikið undan hita, en það er búið að vera sérstaklega heitt upp á síðaskastið, engin rigning, veðurfréttirnar segja 32 gráður og 60% líkur á rigningu en sannleikurinn er sá að það eru 44 gráður og 10% líkur á rigningu.

Það er alveg ferlega skemmtilegt að fara á pósthúsið. Justin er að bíða eftir pakka, þannig að ég að fór að reyna að sækja hann... Ég var send á alskonar borð og bása, þar til ég fann loksins hvert ég átti að fara alveg sjálf, þar var mér rétt RISA bók með milljón nöfnum og mér sagt að skoða. Ég skoðaði í klukkutíma. Ekki ennþá kominn, það eru liðnir 2 mánuðir síðan þetta var sent.

Að leita að flugum til og frá Phnom Penh er alveg martröð. Kambódía, og þar að leiðandi Phnom Penh er í miðjunni á Suðaustur Asíu en það þýðir ekki að það séu milljón bein flug til annara landa eins og fra BKK eða KL eða S'pore... Við sumsé finnum ekki flug sem henta okkur frá Sydney. Kannski að Sydney sé vandamálið, það eru mun fleiri þægileg flug frá Melbourne. En þetta er ein af bölvununum við að búa [oftast] í paradís. ó brunnur, þetta reddast allt saman.

Annars get ég ekki neitað því að ég er með smá heimþrá, það er líka svo langt eitthvað þangað til ég kemst til Íslands (10-12 mánuðir). Justin talar varla um annað en að fara "heim til Oz" um jólin. Ég fæ líka alveg nóg af PP einstaka sinnum svona þegar tuktuk og motodopar eru að gera mig brjálaða og mér finnst ég ekki vera að komast í gegnum nemendur mína og verð alveg vonlaus og vill stundum gefast upp á hjálparstörfunum sem ég er í... Ég sakna líka fjölskyldu og vina minna stundum og þess að getað nálgast allt sem ég þarf á einum stað, það er reyndar ein verslun hér sem selur alveg furðulegt órval af vörum, derhúfur, skólatöskur og klósett.. Þannig að það er alltaf eitthvað til að létta lund mína og minna mig á það afhverju ég elska að búa hérna.

Khmer tímarnir ganga ágætlega, en ég held að kennarinn okkar muni yfirgefa okkur bráðum, hann var að fá dúndur vinnu á 5 stjörnu skemmtiferðarbát sem siglir frá Siem Reap til Saigon. Hann fær meira að segja vegabréf og allt, ég held að hann sé mest spenntur yfir vegabréfinu sem hann fær. Þetta er mjög spennandi fyrir hann.

En já,
ást og gleði og allt það,
verð að einbeita mér að flugum Barainn vill ekki að ég sé að slóra svona..


Gamanþáttur í hádeginu

Morguninn var hress. Í dag er síðasti lati morguninn minn... þar sem ég byrja að vinna á hverju morgni í næstu viku. Allavega, vaknaði með Justin eins og venjulega og settist fyrir framan tölvuna til að vinna svolítið, en vegna þess að við fórum allt of seint að sofa í gær varð ég þreytt um hálf ellevu leitið og ákvað að leggja mig rétt svo í 10-20 mínótur. Ekki leið á löngu en Justin kom færandi hendi með samlokur frá FatBoy, sem eru alveg bestu pínu skítugu samlokurnar í borginni, þá var ég búin að sofa í 2 tíma.. jæja, ég brölti fram og gleymdi að skipta um föt, var bara í náttkjólnum en snéri við til að fara í eitthvað. Þetta er svo sem ekki frásögu færandi nema að það koma vindkviða og skellti svefnherbergishurðinni, hurðinn er búin að vera með ferlega mikla stæla upp á síðkastið. Kannski ekki hurðinn en húninn, hann er alltaf að detta af of læsa mig inni í herbergi (eins og í gær þegar ég var læst inni í 2 tíma og náði ekki að taka aðeins til áður en gestir komu til okkar bækurnar mínar og pappírar útum allt...). Að sjálfsögðu var hurðin læst innan frá. Þannig að ég stóð á náttkjólnum læst út úr herberginu mínu. Justin fór niður að sækja leigusalann því það var slökkt á símanum þeirra. Ég gat illa tekið á móti manninum í ljóta náttkjólnum mínum og Justin þurfti að fara aftur í vinnuna... neyðin kennir naktri konu að stelast til að gramsa í ferðatösku hjá helgargestunum sínum og stelast í föt af þeim.. Hvernig ég passaði í fötin hennar Tash er óskiljanlegt, en það tókst. Leigusalinn kom upp með 4 RISA lyklakippur... eftir 20 mínótur fann hann loksins lykilinn að herberginu.

Allt sem ég ætlaði að gera í dag tafðist þar að leiðandi um rúmlega klukkutíma.

Svo las ég stjörnuspána mína á mbl.is

Krabbi: Krabbinn upplifir fáránlegan hlykk á atburðarás um miðjan daginn sem minnir meira á gamanþátt en veruleika. Um þessar mundir ættir þú að einbeita þér að heimilinu og fjölskyldunni.


Þú ert rekin, þú vinnur of mikið.

Gleði gleði... ég var rekin á föstudaginn síðast liðinn. Aldrei verið rekin áður, alltaf að upplifa eitthvað nýtt í Kambódíu. Þetta er samt svo mikið kjaftæði, sko ástæðan yfir því að ég var rekin. Ég hef verið smá veik upp á síðkastið og hef ekki viljað fara í vinnuna þá daga sem ég er verst, og spurði hvort þau vildu ekki frekar að ég væri heima í staðin fyrir að kasta upp á grey krakkana og þeim fannst það rétt hjá mér, væri verra að ég myndi smita allann skólann. Og svo vann ég víst of mikið!?! Stundaskráin segir að ég eigi að kenna í 2 klukkutíma og lesa bækur eða syngja lög í 30 mín (hlé).. þetta er stundaskráin sem foreldrum er sýnt þegar þau skrá börnin sín í skólann, en ég átti að getað troðið þessu öllu í 1.5 tíma, eitthvað sem ég vissi ekki fyrr en í síðustu viku. Þau sem stjórna þarna vilja “að sjálfsögðu” gera allt sem þau geta fyrir börnin, sem sagt að reka kennarann sem þau eru búin að hafa í 4 mánuði, kennarann sem þau þekja vel og hvetur þau til að nota ímyndunnaraflið sitt og fá sjálfboðaliða til að kenna þeim, sjálfboðaliða sem eru kannski í mánuð í Kambódíu. Sem er rangt á svo marga vegu. Bara til að nefna tvennt: þá finnst mér, ásamt mörgum örðum, að það sé rangt að fá sjálfboðaliða til að kenna í skóla þar sem foreldrar borga fyrir menntun barna sinna. Það eru hundruðir munaðarleysingjaheimila sem þurfa á sjálfboðaliðum á að halda til að kenna börnunum ensku. Einnig var tal um að nota aðstoðarkennarann sem ég átti að vera með til að kenna þeim, hún skildi ekki "litað eftir númerum", hún skildi ekki þegar ég vildi láta krakkana nota útklippt form til að búa til bíl, hún kann ekki að skrifa allt stafrófið.

Þetta er bara svo mikið kjaftæði að ég næ varla upp í það.

Eftir mikið þras og leiðindi og hálvitaskap hjá eiganda, aðstoðar skólastjóra og öllu öðru starfsfólki í þrjá daga tókst mér loksins að berja út peningana mína sem Heimskir krakkar skulduðu mér. Það var sagt við mig að ég væri ekki nógu professional, ég veit ekki hvaðan þau áttu að fá þá hugmynd (líklega því ég vann of mikið), en... mér skilst að þegar fólk er rekið annarstaðar að þá þarf að gefa allavega 2ja vikna frest eða að hafa launaávísunina tilbúna ef manneskjan á að hætta strax, nú eða að borga fólki út svo að það hætti og þurfi ekki að vinna uppsagnarfrestinn. Engu af þessu var fylgt eftir. OG þau reyndu að komast undan því að borga mér full laun, sem ég hafði unnið [of mikið] fyrir.

Svo er líka súper stuð að leita að nýrri vinnu, ég er alltaf búin að vera að leita en ekki búin að sækja um mikið, kannski einhver 4 störf.. en núna þegar ég er að þessu fyrir alvöru, þá þarf ég að vera með ástralska menntun, ameríkani, 40 kambódískur karlmaður sem er með 20++ ára reynslu sem fer reglulega í kirkju. Sumar kröfurnar eru bara asnalegar, af hverju þarf ég að fara í krikju á hverjum degi ef ég vil vera skrifstofustýra? Afhverju þarf ég að vera 40 kambódískur karlmaður með ástrlaska menntun til að vera aðstoðarmanneskja við eitthvað verkefni, hjá fyrirtæki sem er ekki ástralskt? Þoli heldur ekki að vera ekki með einhverja eina reynslu, þó að ég sé með alskonar reynslur, en útaf því að ég er ekki búin að vinna í fjármálageiranum að þá get ég ekki fengið vinnu á skrifstofunni sem mig langar mest til að vinna á... en hvernig væri bara að gefa mér sjéns? Fyrir flestar kennara stöðurnar vilja skólarnir fá fólk með ensku sem fyrsta tungumál, ég vil samt meina að hafa lært ensku sem annað eða þriðja tungumál þá ættum við sem erum ekki enskumælandi að hafa meiri skilning á því hvernig það er að læra ensku. ... sem hefur augljóslega borgað sig þar sem ég er strax komin með 2 atvinnuviðtöl og 1 kannski og annað boð um að sækja um þegar næsta önn byrjar. Sérlega skemmtilegt þar sem ég veit um nokkra sem eru búnir að vera að leita að kennarastöðu í meira en mánuð og fá ekkert.

Annars er það líka í fréttum að ég olli slysi, ég var ekki í því en slysið var útaf mér. Ég er bara fegin að ég var ekki í kjól og sæt, heldur sveitt í gömlum stuttermabol og stórum gallabuxum. En þannig var það á fimmtudaginn að ég var á leiðinni heim aftan á mótórhjóli þegar maður sem var að keyra bíl hafði meiri áhuga á að stara á mig en að fylgjast með því sem hann ætti að vera að gera, keyra, þannig að hann klessti á mótórhjól með 2 farþegum, sem betur fer var enginn á mikilli ferð og enginn meiddist.

Áðan vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera við sjálfa mig. Justin eldaði kvöldmat. Og tók af borðinu og bað mig bara um að vera ekki fyrir sér. Ég stóð samt yfir honum allann tímann, því jú, ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera.

Eyða eyða eyða... erum búin að panta sófa, sem kemur eftir 2 vikur, sértilbúna skó sem koma á morgun, kaupa DVD spilara þar sem X-Boxið dó um helgina, og fægiskóflu (ég keypti bláa svo að Justin noti hana, af því að hann neitar að nota straujárnið þar sem það er fallega bleikt og einstaklega gaman að strauja með því.)
Þetta er orðið ferlega langt.

Ég ætla að horfa á djévaffdjé með nýja spilaranum okkar.


Líka í Kambódíu

Einu sinni var ég í dvd búð í Phnom Penh, var að leita að einhverju í joðinu og fann þá JarCity. Mér fannst þetta alveg stórkostlega fyndið, keypti hana að sjálfsögðu, horfði á hana með stralla, breta, kiwi og kana.

mbl.is Bretar og Frakkar sjá Mýrina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband