Bananar talandi Khmer með heimþrá í sundlauginni hjá pósthúsinu sem flaug til og frá.

Á þriðjudaginn kom leigusalakonan mín og dinglaði bjöllunni rétt áður en ég varð að fara í ELT. Hún hafði miklar áhyggjur af mér.
Hún hafði séð Justin fara með Inu, með töskur og alskonar, eldsnemma morguninn áður. Hún hélt að hann hefði farið frá mér fyrir aðra konu....
Kim spurði mig "eiginmaður þinn, hvar er hann? Er hann farinn frá þér fyrir þessa ljósku". Hún var svo einlæg og áhyggjufull yfir þessu öllu saman að ég átti erfitt með að hrynja niður í gólfið og hlæja eins og vitlaus kona. Kannski hafði hún bara svona miklar áhyggjur af þessu öllu því það er hann sem kemur alltaf með peningana fyrir leigunni okkar.
Jæja, hún gaf mér banana til að hugga mig og til að biðjast afsökunnar á látunum í framkvæmdunum sem áttu að vera búnar fyrir 2 vikum. Mér finnst nú að hún hefði getað skipt um ljósaperur áður en við fluttum inn... eða jafnvel sett nýjan hurðarhún svo ég hætti að læsa mig inni.

Ég og Sokuntea (aðstoðarmanneskjan mín) létum öllum illum látum í gær í sundi. Við urðum að bíða í 15 mín eftir fyrsta hópnum okkar svo við stukkum bara útí, gerðum bombur og dýfðum okkur og stóðum á höndum og fórum heljarstökk og syntum eins og höfrungar. Öðrum kennurum og börnunum til mikillar lukku, ég er líka viss um að það hafi verið einhver öfund í loftinu, því það var heitt heitt.. nú er ég ekki manneskja sem kvarta mikið undan hita, en það er búið að vera sérstaklega heitt upp á síðaskastið, engin rigning, veðurfréttirnar segja 32 gráður og 60% líkur á rigningu en sannleikurinn er sá að það eru 44 gráður og 10% líkur á rigningu.

Það er alveg ferlega skemmtilegt að fara á pósthúsið. Justin er að bíða eftir pakka, þannig að ég að fór að reyna að sækja hann... Ég var send á alskonar borð og bása, þar til ég fann loksins hvert ég átti að fara alveg sjálf, þar var mér rétt RISA bók með milljón nöfnum og mér sagt að skoða. Ég skoðaði í klukkutíma. Ekki ennþá kominn, það eru liðnir 2 mánuðir síðan þetta var sent.

Að leita að flugum til og frá Phnom Penh er alveg martröð. Kambódía, og þar að leiðandi Phnom Penh er í miðjunni á Suðaustur Asíu en það þýðir ekki að það séu milljón bein flug til annara landa eins og fra BKK eða KL eða S'pore... Við sumsé finnum ekki flug sem henta okkur frá Sydney. Kannski að Sydney sé vandamálið, það eru mun fleiri þægileg flug frá Melbourne. En þetta er ein af bölvununum við að búa [oftast] í paradís. ó brunnur, þetta reddast allt saman.

Annars get ég ekki neitað því að ég er með smá heimþrá, það er líka svo langt eitthvað þangað til ég kemst til Íslands (10-12 mánuðir). Justin talar varla um annað en að fara "heim til Oz" um jólin. Ég fæ líka alveg nóg af PP einstaka sinnum svona þegar tuktuk og motodopar eru að gera mig brjálaða og mér finnst ég ekki vera að komast í gegnum nemendur mína og verð alveg vonlaus og vill stundum gefast upp á hjálparstörfunum sem ég er í... Ég sakna líka fjölskyldu og vina minna stundum og þess að getað nálgast allt sem ég þarf á einum stað, það er reyndar ein verslun hér sem selur alveg furðulegt órval af vörum, derhúfur, skólatöskur og klósett.. Þannig að það er alltaf eitthvað til að létta lund mína og minna mig á það afhverju ég elska að búa hérna.

Khmer tímarnir ganga ágætlega, en ég held að kennarinn okkar muni yfirgefa okkur bráðum, hann var að fá dúndur vinnu á 5 stjörnu skemmtiferðarbát sem siglir frá Siem Reap til Saigon. Hann fær meira að segja vegabréf og allt, ég held að hann sé mest spenntur yfir vegabréfinu sem hann fær. Þetta er mjög spennandi fyrir hann.

En já,
ást og gleði og allt það,
verð að einbeita mér að flugum Barainn vill ekki að ég sé að slóra svona..


Sund, enska, ballet

Já, ég er kannski að verða ballet kennari líka.
Það er víst mikil eftirspurn hjá litlum stelpum að læra að dansa, sérstaklega í hjá The Giving Tree (TGT) en það eru engir danstímar fyrir börn í Phnom Penh. Fyrst þarf náttúrulega að setja parket eða dúk á gólfið og spegla og slár á veggina. En það væri gaman að kenna ballet hjá TGT. Mér finnst þetta alveg ferlega spennandi. Ég var líka að skrifa undir nýjann sund samning hjá TGT..Gleði gleði.

Ég fékk kennslumat frá ELT í síðustu viku, mjög sátt við það. Ég tala víst ekki alveg nógu skýrt... en þau eru sátt við að ég sýni öllum jafna athygli, hvet þau til að læra og hvernig ég klæði mig. Þannig að núna get ég hætt að stressa mig yfir því.

Fórum í Superhetju partí á föstudaginn. DuffMan og Bananaman og Batman og Rubies-gang var þar í góðum fíling. Ég fór sem Icemaiden og Justin var SuperBanker og Ina (vinkona Justins frá Melbourne) fór sem WonderWoman going out for dinner. Það var stuð og gaman en við þurftum að fara heim snemma til að vakna alltof snemma til að taka rútu til Sihanoukville.

Komum til Snooky um hádegi og fórum á gistiheimilið sem ég var búin að bóka og brunuðum á Otres þar sem ég og Justin sváfum í marga klukkutíma. Ég komst líka að því að ég nauðsynlega verð að kaupa nýtt bikini þar sem minikinið mitt var bara ekki að meika þetta. Mér tókst að flassa alla á ströndinni...eða svoleiðis, enginn nema Justin sá aðra túttuna mína. Ferskur sjávarmatur og sundsprettur.
Svo var tjúttað aðeins eftir að hafa fengið næst bestu borgara í Kambódíu. Fötur og stríðsmálning...
Ljóta rútu fyrirtækið seldi sætin okkar því við vorum ekki komin 20 mín áður en hún átti að fara, og rútan fór 5 mín á undan átætlun. Og þau voru með kjaft og leiðindi, neituðu að endurgreiða okkur en enduðu á að senda okkur heim með frekar lélegri rútu frá allt öðru fyrirtæki. Auma pakkið.

Og núna er Justin í Siem Reap með Inu og ég er bara ein heima. Finnst það bara ekkert skemmtilegt, en ég á ekki fyrir því að fara til SR. Hann kemur svo sem aftur heim á morgun þannig að þetta er allt í lagi.

Jæja, best ég fari að vinna... verð að skrifa meira.

Þar til síðar.


Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera.

Nýja vinnan er mjög fín. Ég held að mér gangi vel og ég held að nemunum mínum líki vel við mig. Ég er að kenna 3ja stig í ensku. Ég er samt ekki alveg viss hvað það þýðir, þetta er 9unda - 10unda bekkjar enska en þau sem sækja tímana eru miklu eldri.Það er einn strákur skotinn í mér og horfir dreyminn á mig í klukkutíma, hann mætir líka alltaf fyrstur og er síðastur til að fara, svo er hann ferlega æstur í að svara spurningunum mínum. Svo er annar sem er yndislega dramatískur, við vorum að læra um Past Continuous og heimavinnan var að skrifa 10 setningar í P.C. hans voru t.d. "Juliette was sleeping when Romeo died", ég er reyndar ekki alveg viss hvernig hann þekkir Rómeo og Júlíu, þar sem ég hef aldrei séð kambódíska unglinga lesa eitthvað annað en glansblöð. Þau eru öll alveg ágæt sem sækja tímana mína. Þau eru samt ennþá svolítið feimin en við erum að vinna í þessu.. kannski hressist eitthvað í þeim þegar við leikum orðaforða keppnina á eftir.
Einnig var ég að fá fleiri tíma í sundinu. þannig að núna vinn ég alveg 12.5 tíma á viku og þjéna næstum því stóra peninga.
Ég er mjög ánægð með vinnustaðina mína, því það er svo gott andrúmsloft á báðum stöðum og samstarfsfólkið mitt skemmtilegt og allir hjálpast að. Nú hef ég farið í prufur í marga skóla og hvegi kunnað við mig betur en í ELT og The Giving Tree.

Við Justin erum loksins byrjuð í Khmer tímum, betra er seint en aldrei ekki satt? Við erum búin að læra fullt og ferlega skemmtilegt. Kennarinn okkar, Khiench (ég hef ekki hugmynd um hvernig nafnið hans er skrifað en svona hljómar það) er alveg handviss um að við verðum reiprennandi í Khmer eftir bara nokkrar vikur. Ég er nú ekki alveg svo viss. Þetta er nú ekkert svo erfitt tungumál, allavega í framburði og málfræði. Sjáum til hvrenig fer ef ég reyni að læra að lesa og skrifa.

Í síðustu viku var byrjað að vinna í húsinu mínu. Það mætti halda að byggingamennirnir séu í keppni um hver geti búið til mesta hávaðann, frá klukkan 7 á morgnanna. Best var samt að það var sett tilkynningin um yfirvofandi framkvæmdir daginn eftir að þau lömdu veggi og glugga og eldhús út úr 4 íbúðum.

Vinkona hans Justins kemur í heimsókn eftir 2 vikur og þá ætlum við á ströndina, mikið hlakka ég til að gera ekkert í 2 daga, við ætlum að sleppa Serendipity og þeim látum og fara beint á Otres í slökun.
Það eru líka nokrrir Íslendingar á leiðinni hingað. Það verður gaman. Kannski ég grafi upp Ópalið?
Einnig er frí í September og þá ætlum við til Kampot og Kep.
Svo ég tali nú ekki um fríið í Nóvember, water festival. Ég vona að við verðum komin í aðra íbúð þá við Riverside svo við getum fylgst með bátunum. Í fyrra voru víst 2 milljónir manns á Sisowath Quay, það tók hátt í klukkutíma að fara yfir götuna sem er bara tvíbreið.
Og í Desember er það Ástralía. Alltaf gaman að fara eitthvað nýtt

Ást og hamingja.


Gerðu eins og heimamenn og sparaðu krónurnar

Ný færsla eftir mig dohop blogginu um það sem fólk gerir sér til dægrastyttingar á ýmsum stöðum í Asíu (sér í lagi ég)

http://blog.dohop.com/index.php/2009/08/10/going-local-and-saving-a-buck/

Njótið.

Til athugunnar: ég meina ekkert illt með neinu af því sem stendur í greininni eins og sumir vilja halda.


Að gefa Tælandi annað tækifæri

Ný færsla eftir mig á dohop blogginu um Tæland: http://blog.dohop.com/index.php/2009/08/05/giving-thailand-a-second-chance/

Njótið


Nóg að gera.

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að ég átti afmæli fyrir tveim vikum. Og þvílikur dagur.

Tók reyndar forskot á sæluna og hélt smá afmæli á NACA. Ég Steinunn keyptum heilt fjall af flatbökum og ávaxtasafa handa þeim. Uppi varð fótur og fit og brjálæðiskast. Steinunn hafði sagt krökkunum að ég ætti afmæli í síðustu viku og þau bjuggu til afmæliskort handa mér. Eftir að hafa borðað helling af pizzu og drukkið safa var spurt hvort ég hefði komið með köku, en ég hafði ekki verið svo grand á því. Þá laumuðust nokkrar stelpnanna út til að kaupa cup-keik handa mer laumuðust upp á efri hæðina og setti fullt af kertum í hana og komu svo að sækja mig. Eftir að þau höfðu troðið kökunni upp í mig fóru þau að stilla mér upp eins og það væri að fara úr tísku. Ansi skemmtilegt og mikið hleygið.

Tuttuguasti og fyrstu júli, tuttugasti og þriðji afmælisdagurinn minn byrjaði bara eins og hver annar þriðjudagur svo sem, fór í vinnuna, sem átti að vera síðasti dagurinn minn í sundinu. Svo varð ég að bruna heim og undirbúa mig fyrir kennslupróf sem ég rústaði! Justin hafði hjálpað mér kvöldið áður að undirbúa 2 kennslustundir, eina fyrir unglinga og eina fyrir fullorðna. Og já... ég rústaði því. Byrja í dag hjá ELT (elt.edu.kh) ferlega spennandi

Fór svo og hitti Steinunni sem gaf mér klukkustund af himnaríki í afmælisgjöf... við fórum á Bliss Spa (http://blissspacambodia.com/). Eitt af mínum uppáhalds, og Bliss Boutique er alveg æði líka, allt svo blómalegt og fallegt, og alveg tilvalið í veðrinu hér. Þegar himnaríki kláraðist í sundlauginni sem var inn í nuddherberginu mínu fórum við á The Shop, sem er yndislegt lítið belgískt kaffihús, þar sem við fegnum súper góðar kökur.
Steinunn varð þá að drífa sig á NACA og ég kíkti aðeins í búðirnar á st.240, sem er eiginlega hátískugata Phnom Penh og fór svo heim til að bíða spennt eftir Justin. Mjög skemmtilegt að bíða því ég fékk að tala við pabba og Eydísi á Skype og þau eru loksins komin með vefmyndavél, góð afmælisgjöf það.
Justin tók mig svo út í 3ja rétta máltíð á uppáhalds veitingstaðnum mínum Scoop (það er engin heimasíða...). Kampavín var pantað um leið og við settumst og hörpudiskar og sniglar, epla sorbet til að hreinsa munninn og ferska bragðlaukana, í aðalrétt var steikarsalat fyrir mig og Kobe svín handa Justin, í eftirrétt var súkkulaði Sufflé handa Justin og Lava cake handa mér. Ég fór á salernið á meðan við vorum að bíða eftir aðalréttinum og þá talaði Justin við þjónanna og þegar það var kominn tími til að fá eftirréttinn voru ljósin dimmuð og sett eitthvað stuð lag á sem passaði ekki alveg við stemminguna, en klukkan var að verða 9 (sem er mjög seint í Kambódíu) ég djókaði eins og bjáni “hva, er bara verið að breyta Scoop í skemmtistað?” en þá kom allt starfsfólkið með yfirkokkinn í fararbroddi að syngja fyrir mig og yfirkokkurinn hafði meira að segja sett bleikt kerti hjá kökunni minni.
Allt í allt, ferlega góður dagur og kvöld.

Nú gleðin hættir ekki þar... á laugardaginn (25 júlí) var kveðju teiti fyrir Paul og Steinunni, að sjálfsögðu, misskildi þetta allt saman, hélt að Paul hefði skipulagt þetta allt saman fyrir hana. Steinunni fannst hann ferlega góðhjartaður að gera þetta fyrir hana miðað við hvað þau þekkjast mjög lítið... Allavega... þá byrjuðum við á því að sigla niður Tonle Sap og upp Mekong og til baka, ótrúlega skemmtilegt og fallegt að horfa á sólsetrið. Brunuðum svo í karaoke sem var dúndur stuð. Við vorum líklega 20 í uber stuði. Svo byrjaði pöbba-rölt sem endist nú ekki lengi.. við fórum á 1 bar... Justin, Steinunn og ég vorum ekki á þeim buxunum að fara heim strax og fórum í spilavítið Nagaworld þar sem Justin vann fullt af seðlum í 21 og ég vann nokkra í spilakassa.. ekki skemmdi fríi bjórinn fyrir.
Daginn eftir kom svo loksins nýji fallegi æðislegi sófinn okkar. LOKSINS. Íbúðin miklu fallegri núna eftir að við losnuðum við þetta ljóta óþægilega sófadrasl.

Síðasta vika hefur ekki verið neitt sérlega viðburðarrík. ... fórum í networking teiti.. ég þarf að fara að fá mér nafnspjald til að gefa fólki. Væri erfitt að koma öllu fyrir sem ég geri, en það má reyna. Justin stakk upp á “teacher extraordinaire”, ég held að það sé aðeins og mikið kannski.

Justin notaði spilavítispeningana sína til að kaupa Nitendo Wii um helgina. Vííí, núna spilum við keilu og tennis og trivial og einhvern Agatha Christie leik. Ég hefði nú samt vilja að hann hefði splæst í lök og rúmteppi.. ég hef bara eitt orð: karlmenn!

Jæja ég þarf að fara að undirbúa mig fyrir fyrsta daginn minn.

Ást og hamingja.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband