Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Á léttari nótum.
Það var minningarathöfn fyrir Ian á föstudaginn og á laugardaginn. Á föstudaginn komu munkar til að biðja fyrir sál hans og anda. Það er stelpa sem vinnur á veitingastað við hliðina á Magic Sponge þar sem Ian vann sem var hryllilega mikið skotin í honum, og var alltaf að reyna að tæla hann með mat. Hún var alltaf að gefa honum steik og franskar well done, eins og allir vita að þá er leiðin að hjarta mannsins í gegnum magann. Hún færði munkunum steik og franskar. Venjulega fá þeir hrísgrjón og eitthvað kambódískt. Það var allavega mjög fyndið að sjá steik og franskar fyrir framan munka.
Á laugardaginn söfnuðumst við svo öll saman á Magic Sponge til að minnast Ians. Bakpokaferðalangar sem vissu ekkert hvað var í gangi ráfuðu inn á barinn en þegar þeir sáu myndirnar af Ian og tárin í augum okkar voru þau fljót að láta sig hverfa, nema einn sem borðaði af matnum okkar og drakk ókeypis bjór þangað til honum var sagt að þetta væri minningarathöfn. Bjána ferðalangur. Við skáluðum Ian, skrifuðum í minningarbók sem verður send til foreldra hans því þau komust ekki til PPenh, hlustuðum á Pink Floyd og sögðum sögur af Ian. Það var góð stund sem við áttum saman.
Síðustu þrjár færslur hafa verið heldur þungar en afþví að það er svo fallegur dagur í dag ætla ég að hafa þetta létt.
Ég er að komin með smá vinnu sem byrjar bráðum, eða þegar það verður nógu heitt á morgnanna. Það er á leikskóla sem heitir The Giving Tree ( http://www.thegivingtreeschool.com ) þar mun ég kenna sund og kannski ballet líka. Skólinn sem ég fór í prufuna hjá datt upp fyrir vegna þess að ég átti fund með skólastjóranum klukkan 10 í síðustu viku, ég kom og enginn skólastjóri var á svæðinu. Hann hafði meira að segja hringt daginn áður til að staðfesta fundinn. Nú jæja... svo fór hann bara eitthvað annað og afboðaði aldrei fundinn við mig, ég skildi eftir skilaboð og hann er ekki ennþá búinn að hringja aftur. Ég held ég myndi heldur ekki vilja vinna þar, miðað við þessi vinnubrögð og krakkana sem ég var að kenna ensku. Þau þögðu í kannski 5 mínótur samtals af allri kennslustundinni, mættu of seint og töluðu í síma í tíma. Ef ég skammaði þau fékk ég bara hallærisstörur til baka og heimskulegt fliss.
Á eftir er ég að fara í viðtal í skóla sem heitir Footprints, þeim vantar hlutastarfs kennara, hálfur dagur, í minnsta lagi 500 dollarar á mánuði. Svo ætla ég að fara aftur í ACE sem er fjandi góður skóli, sem borgar líka ansi vel, og heimta vinnu á mjög kurteisann hátt.
Við Justin vorum að flytja á sunnudaginn, það var ekki langt, bara upp eina hæð. Þegar við byrjuðum flutninginn sagði hann að þetta myndi ekki taka neinn tíma... svo áttaði hann sig á því að á einu ári er hægt að sanka að sér ansi miklu dóti... Ég er búin að ganga frá öllu mínu, enda á ég bara 4 DVD myndir, 6 bækur og 15 kíló af fötum... Hann aðeins meira.
Það er búinn að vera endalaus gestagangur, manneskjur númer 9 og 10 komu á sunnudaginn. Þetta er að verða svolítið þreytandi.
Ég er svolítið búin að vera fíla mig sem heimavinnandi húsmóður síðustu daga, með alla þessa gesti. Alltaf að kaupa klósettpappír, ávexti og mjólk, skúrandi hægri vinstri, skipta á rúmum og þvo þvotta þess á milli sem ég fer í skóla með ferilskránna mína og á NACA til að sjá krakkana mína. Vegna þess að ég er ekki komin með endanlega stundaskrá hef ég ekki getað kennt þeim ensku og það fer alveg rosalega mikil orka í það að fara í atvinnuviðtöl.
Allt í einu er ég í söfnun í Ástralíu fyrir NACA, Nigel og Justin þekkja einhvern sem stjórnar einu af stærsta dagblaðið í Ástralíu og það eiga að birtast myndir sem ég hef tekið af krökkunum og lítill texti sem ég skrifaði um heimilið. Við erum ekki að biðja um peninga, þar sem þetta er ekki NGO og ekki skráð í Ástralíu og þá fær fólk ekki tax reduction fyrir það, heldur kenslu efni, bækur, plakköt og DVD, því það fæst voðalega lítið af góðu kennsluefni hérna. Fyndnast var þó að ég hafði ekki hugmynd að þeir feðgar væru að þessu fyrr en rétt fyrir jól þegar ég fékk tölvupóst þar sem ég var beðin um að skrifa blurb og taka góðar myndir af þeim þegar ég kæmi aftur til Kambódíu. Ég hefði ekki getað beðið um betri gjöf.
Justin var að hringja, ég þarf að fara heim að vinna einhvern aðgangs passa fyrir ANZRoyal bygginguna og minnismiða sem hann gleymdi í morgun og fara með það á skrifstofuna hans.
Athugasemdir
:)
spíra (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.