Gleði gleði, Erna Sendiherra

Halló halló,

Ég sá annan furðulegan bíl.  Klukkan var 1 um morgun og ég var á leiðinni heim frá Ásdísi og Benjamin.  Bíllinn keyrði fyrir framan okkur.  Tvö stór pálmatré komu út um afturgluggana! Já það er búið að vera mikið stuð í Kambódíu.  Fullt af Íslendingum, svo mikið að Justin kallar íbúðina okkar Sendiráð Íslands í Kambódíu.  Fyrst komu Bylgja sem býr í Malasíu og Sæunn vinkona hennar sem er að fara að vinna á Expo-inu í Shanghai.  Fyrstu helgina í febrúar komu Helga, Þorgerður Anna og Davíð ásamt kólumbískum vini sínum, Felipe.  Helga og Anna voru með mér í kínverskunni þarna um árið og þær komu núna í heimsókn.  Það var mikil gleði að sjá þær aftur.  Tjúttuðum smá á föstudagskvöldinu og spiluðum Jenga. 

Á laugardeginum var Manday með öllu tilheyrandi.  Íslendingum og kólumba til mikillar gleði.  Grillið okkar var loksins komið til Phnom Penh þannig að við fórum að sækja það og settum það saman og grilluðum!  Svín, rækjur og kartöflur og salat (það fór samt ekki á grillið).  Ásdís, Benjamín, Freyja og Gaia komu í veisluna og það var Íslendingaparti með Helgu, Önnu, Davíð, Felipe og Mike á svölunum okkar, sem ég var nýbúin að grisja og gera aðgengilegar, það er ég fjarlægði stóran part af frumskóginum sem var þar.  Alveg hreint æðislegt kvöld.  Fórum svo út að dansa og skemmtum okkur konunglega.

Í gær var bolludagur, ég vissi það af því að Krónan lágvöruverslun sendi mér tölvupóst í síðustu viku.  Þannig að ég bakaði þessar líka fínu vatnsdeigsbollur.  Theary, hreingerningarkonan mín, var alveg himinlifandi yfir þessu öllu saman og fannst þær alveg rosalega góðar!  Svo þar sem ég var hvort eð er með heitan ofn skellti ég í ostasnúða líka, var að hugsa um að gera möffins líka, en ákvað að geyma það þar til á konudaginn, en þá ætlum við að halda bóndadaginn því ég steingleymdi hvenær hann er.  Justin finnst þessar íslensku hefðir miklu skemmtilegri en valentínusardagurinn, sem er haldinn í Ástralíu og tekur glaður þátt í þessu með mér.  Held að við getum þó ekki gert neitt á öskudaginn, verðum að vinna, eða sumardaginn fyrsta... því það er alltaf sumar hérna.

Já og svo komu tveir ljósmyndarar, þeir eru að vinna að bók.  Ég veit ekkert hvað ég má segja, nema það var gaman að hitta þá og hjálpa þeim aðeins.

Núna er kínverska nýja árið gengið í garð, ár tígursins, drekadansarar eru út um allt og trumbusláttur, einstaka kínverji sprengdur og nokkrir flugeldar.  Annars er ég ekki viss, gæti náttúrulega verið byssuskot.  Ekki skemmdi fyrir hjá Khmer-um að það væri líka valentínus á fyrsta degi tígursins.  Því valentínusardagurinn er stærsti dagur ársins hérna!  Margra klukkutíma biðröð á Kentucky Fried Chicken!! NGO-in þræða göturnar og gefa ástföngnum unglingum smokka því margir krakkar hér misskilja valentínusardaginn og sofa hvort hjá öðru í fyrsta skipti, ja.. öryggið á oddinn allavega!

Það er annars allt gott að frétta.  Nýja íbúðin er góð, nema þegar padda eða eðla fara yfir skynjara niðri í bankanum, þá þurfum við að fara út og bíða eftir að einhver komi og slökkvi á viðvörunar kerfinu.  NACA krakkarnir eru sáttir. Vinnnan er góð, Giving Tree og ELT og Oriental.  Allt gott.  Bara miiiiiikið að gera!!

Lifið heil, ekki borða of mikið af saltkjöti og fáið fullt af namminamm.  mmmmmmmm namminamm mig langar í kúlusúkk, bananabombur, freyju bombur og hlaup.  Síðar á þessu ári?

P.S. Ég er úin að fá nokkrar kvartanir vegna bloggleysis, samt er ég alveg viss um að enginn les þetta því þegar ég fer inn á síðuna og skoða hvað ég fæ margar heimsóknir eru það 20-50 þegar ég blogga og set það á smettið en annars er það 1-5.. Hmm.

 

 


Undralandið Kambódía


Mig langar að deila með ykkur einu sem ég sá í vikunni...

Á laugardaginn, um miðnætti á leiðinni heim frá vinum okkur sáum við Justin gamlan Toyota Camry. Ekkert óvenjulegt svo sem. Nema að það kom froða út úr baksætisgluggunum. Mikil forða sem bullað út úr bílnum. Þegar við kíktum betur á þetta sáum við að það var eins og stórt tjald fullt af einhverju í aftursætinu. Bílstjórinn og farþeginn voru strákur og stelpa um tvítugt, mjög alvarleg á svip og andlitin eiginlega klesst í framrúðunna vegna þess að tjaldið í aftursætinu var svo stórt. Utan um skottið var búið a binda varadekkið og stórann poka af steypudufti eða hrísgrjónum.

Kambódía er kölluð Kingdom of Wonder... Á hverjum degi íhuga ég hvað er í
gangi hérna.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband